Færsluflokkur: Vændi

Er vörn í kristindómi?

Kristinn maður samþykkir ekki siðleysi vændis, kýs því ekki Sjálf­stæðisflokkinn, sem ber ábyrgð á á fimmta hundraði vændis­kvenna á Íslandi.

Kristin kona fer ekki í vændi, líður frekar fátækt og að segja sig til sveitar en að selja líkama sinn. Ókristin persóna hefur ekki þessa innri siðferðisvörn (sem er mjög eindregin í kristinni trú) og dæmist því siðferðislega vægar en sú kristna, sem veit betur.

Kristinn maður lætur ekki tilganginn helga meðalið (sjá Rómverjabréfið, 3,8).

Kristinn maður tekur ekki saklaust manns­líf. Þess vegna getur sannkristinn maður ekki fengið sér starfa við að murka lífið úr ófæddum börnum, í s.k. fóstureyð­ingu. Sömuleiðis neitar kristinn maður, vegna þessarar innri siðferðisvarnar sinnar, sem er rótfest með honum af hans kristnu trú, að mæla með fóstureyðingum, hvað þá heldur að samþykkja þær á flokksþingum og á sjálfu Alþingi.

Ófæddum börnum er hér sannarlega vörn í kristinni trú, líka þegar kemur til kasta mannlegra samskipta, þegar leitað er ráðgjafar eða hjálpar í þessum málum og ekki aðeins innan fjölskyldunnar og vinahrings.

Ung, einstæð kona með eitt barn leitaði til stofnunar sem undirritaður veitti forstöðu, vantaði húsnæði. Í ljós kom að hún var líka með barni og var, að hún taldi, á leið í fóstureyðingu, búin að sækja um og beið aðeins eftir deginum, daginn eftir eða þar á eftir. Ég reyndi að tala um fyrir henni með ýmsu jákvæðu móti, m.a. með framboðinni leiguíbúð á góðum kjörum, en það kom þó fyrir ekki, og áhyggjufullur lagðist ég til hvílu.

Daginn eftir ræddum við aftur saman, og þá sagði hún mér, að hún hefði hætt við fóstureyðinguna! Nú á þessi vel gerða kona því tvö börn og getur ekki þakkað það nógsamlega! Ég þakka það þó ekki mér, heldur Guði sjálfum og fyrirbænum hinna bænheitu Karmelsystra í Hafnar­firði, sem ég hafði leitað til í þessu tilfelli eins og oftar. En það má enginn kristinn maður bregðast í þessari keðju mennskra samskipta. Barni þessarar konu og þeim báðum var sannarlega vörn í kristindómi. Og trúið á bænina!

Það munu einkum vera kristin foreldri, sem hafna því að "láta eyða" Downs-fóstrum hér á landi. Þetta hefur oft gerzt þegar komið er á 5. mánuð meðgöngu. Samt verður þessum fóstrum aldrei eytt í reynd, þau verða ekki látin gjalda fyrir tilveru sína í öðru lífi, þótt þau geri það í þessu lífi og þó að foreldrar þeirra eigi eftir að svara fyrir gerðir sínar, nema þau iðrist gerða sinna fullkomlega. Lesið Matth. 25.40.

Viðauki. Hér var í gær talað um 500 vændiskonur, og Fréttablaðið í dag hefur þetta eftir mér, þó eins og efins í málinu, sem og að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á öllu saman. En ætluð heimild mín var Pétur á Útvarpi Sögu í útsendingu í gær. Ég bar þetta undir hann áðan og hver heimild hans væri; hann sagði töluna vera "á fimmta hundrað" og að þetta hefði komið fram í frétt frá lögreglunni.

En að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á þessu, ....

(Framhald)

Jón Valur Jensson.


Vændi á að banna, enda er það andkristilegt

Þegar stjórnarskráin segir að ríkinu beri að styðja þjóðkirkju landsins, felur það í sér vissan stuðning við helztu kristin siða­boð. Lesum hér um þau:

I. Kor­intu­br.6:16: "Vitið þið ekki að sá sem liggur með skækju verður ásamt henni einn líkami? Því að ritað er: „Þau tvö munu verða einn líkami.“"

Sama rit, 6.13: "En líkam­inn er ekki fyrir saur­lífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir lík­amann."

Sama rit, 6:19: "Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri Heilags Anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf."

Það er fyrir neðan mannlega virðingu að gera líkama sinn að verzlunarvöru í þessari merkingu, þótt þannig hafi Heimdellingar, ráðgjafar Björns Bjarnasonar sem ráðherra, talað og skrifað, með slæmum afleiðingum í löggjöf. Það átti aldrei að slá neitt af gömlu lögunum og ekki að gera vændissölu refsilausa. Alþingismenn ættu að sjá sóma sinn í því að banna bæði sölu og kaup vændis. Leiðirnar, sem hingað til hafa verið farnar í meðferð þessara mála, hafa nú leitt af sér sprengingu í vændi á Íslandi!

Ætla menn svo að bíða þess aðgerðalausir, að kynheilbrigði landsmanna bíði hnekki vegna kynsjúkdóma sem berast frá vændiskonum til karlmanna og síðan til annarra hjásvæfna þeirra eða eiginkvenna? Fer þá kynsjúkdómum hér enn fjölgandi, eins og gerzt hefur meðal samkynhneigðra og tvíkynhneigðra (og síðan annarra líka) vegna sárasóttar-faraldurs, lifrarbólgu-C og HIV-smits meðal samkynhneigðra karla?

Þurfa menn ekki að tempra sitt yfirlýsta "frjálslyndi" með hagsmuni ungs fólks og fjölskyldna og þjóðarinnar allrar í huga? Hvað kostar t.d. útbreiðsla AIDS heilbrigðiskerfið? Hvað kostar það okkur, ef fjölskyldur brotna upp vegna þess að upp kemst, að eiginmaður hafi smitazt af kynsjúkdómi hjá annarri konu? Hver mælir þann mannlega harmleik fyrir okkur?

Og eiga ekki prestarnir að minna á það í ræðu og riti, hver er hin skelegga kenning Biblíunnar í þessu vændismáli? Þeir eiga EKKI að giftast tíðaranda þeirra, sem hlaupa eftir girndum sínum.

PS utan dagskrár: Sr. Geir Waage í Reykholti verður í viðtali á Útvarpi Sögu í dag kl. 5-6 (FM 99,4) og viðtalið endurtekið seinna í kvöld. Að venju má vænta góðra hluta af séra Geir.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sprenging í vændi á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændi er andkristið framferði

Eitt er víst: vændissölu-tillaga Jónasar fv. DV-ritstjóra er EKKI KRISTIN:

I. Kor­intu­bréf 6.13: "En líkam­inn er ekki fyrir saur­lífi heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir lík­amann."

Sama rit, 6:16: "Vitið þið ekki að sá sem liggur með skækju verður ásamt henni einn líkami? Því að ritað er: „Þau tvö munu verða einn líkami.“"

Fyrra Korintubréf 6:19: "Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf."

Það er fyrir neðan mannlega virðingu að gera líkama sinn að verzlunarvöru í þessari merkingu, þótt þannig hafi Heimdellingar, ráðgjafar Björns Bjarnasonar sem ráðherra, talað og skrifað, með slæmum afleiðingum í löggjöf. Það átti aldrei að slá neitt af gömlu lögunum og ekki að gera vændissölu refsilausa.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þörf sé á skilaboðum um að vændiskaup séu ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændissprenging hér á landi okkur til hneisu alþjóðlega. Tafarlaust þarf að hreinsa til með strangari löggæzlu og nýrri löggjöf!

Meira vændi er nú stundað hér á landi en nokkru sinni fyrr skv. niður­stöðum rann­sókna banda­ríska utan­ríkis­ráðu­neyt­isins, að sögn Mbl. Snorri Birgisson lög­reglu­full­trúi segir spreng­ingu hafa orðið í fram­boði á vændi hér á landi á síð­ustu 18 mán­uðum. Banda­ríska skýrslan segir Ísland orðið "annars flokks ríki" í Evrópu með tilliti til mansals­mála.

Á þessu þarf að ráða bót sem fyrst. "Sænska leiðin" reyndist engin vörn gegn þessari flóðbylgju vændis og mansals! Hún gefur þvert á móti öllum aðkomnum (sem öðrum) vændiskonum (þ.m.t. transkonum!) nánast frítt spil með því að sleppa þeim við allri refsingu. Þetta eru þær fræddar um frá byrjun og útkoman eftir því. 

Banna ber vændi og gera refsivert af hálfu allra gerenda, en mest í tilfelli vændisdólga. Í tilfelli algerrar nauðungar kynlífsþræla ber að viðurkenna það til refsileysis/refsilækkunar.

Undirritaður tekur undir með Birni Bjarnasyni, að "þetta er alvarlegt mál ekki aðeins vegna vændisins heldur allrar skipulögðu glæpastarfseminnar sem þrífst í kringum það. Til að brjóta málið til mergjar verða umræður um útlendingamál á opinberum vettvangi að taka á sig annan svip en til þessa," segir hann.

Hann rifjar upp, að

"eitt fyrsta málið sem meirihlutinn að baki ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar náði fram á vorþinginu 2009 var innleiðing á svonefndri „sænskri leið“ til að sigrast á vændi. Við flokksbræðurnir Jón Magnússon og Kjartan Ólafsson greiddum atkvæði gegn frumvarpinu. Ég var sannfærður um að lagabreytingin yrði haldlaus í baráttunni gegn vændi. Sýnist mér það hafa sannast." (Leturbr. jvj)

Rétt athugað hjá Birni. Það er ekki að ástæðulausu né ósekju, að nú í hádegisfréttum Rúv er mansal einmitt talið tíðkast hér og jafnvel í stórum stíl. Það er ekkert verið að búa þetta til sem gervifrétt, þótt ekki hafi verið nein mansalsmál í dómskerfinu í 6 ár. Vandinn er ekki sízt fáliðuð lögregla og skammarlegur niðurskurður á framlögum til lögreglumála á fjárlögum -- nokkuð sem ENN er í gangi! 

Björn enn: "Væri rannsóknarefni að fara ofan í umræður um þetta mál hér á sínum tíma auk þess að kanna örlög „sænsku leiðarinnar“ almennt." --Undirritaður tekur undir þá hvatningu hans, enda hef ég oft gagnrýnt þessa "sænsku leið" með rökum, m.a. í greinum í efnisflokknum Vændi hér á Krist.blogginu.

Þá skal að lokum minnt á fyrri röksemdafærslur þar um skaðsemi vændis fyrir hjónabönd og fjölskyldulíf, m.a. vegna kynsjúkdóma. Það er ekki af tilviljun sem vændisfólki er bannað að gefa blóð!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sprenging í vændi á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurfrjálshyggjan siðlaus í vændismálum

Ofurfrjálshyggja dr. Hann­esar Hólm­steins um vændismál kemur kunnugum ekki á óvart. Skoðanabræður hans í stuttbuxnadeildinni fengu að hafa áhrif á lagasmíð Björns Bjarnasonar sem Bjarni Ben. hinn ungi tróð gegnum þingið síðla vetrar 2007, raunar með atkvæðum allra flokka á þingi! En með þeirri löggjöf var, með vissum takmörkunum, gert leyfilegt bæði að kaupa og selja vændi. Síðar tókst vinstri flokkunum að taka hér upp „sænsku leiðina“ með því að banna hér aðeins kaup vændis, ekki sölu þess. Það breytir því ekki, að upplýstur álitsgjafi eins og Svala Heiðberg, sem vinnur merkilegt hjálparstarf við athvarf fyrir fórnarlömb vændis og mansals í Kaupmannahöfn, lýsti í viðtali í Fréttablaðinu 7. marz sl. viðhorfi sínu þannig:

  • Vill banna vændi
  • Svala segist mundu vilja sjá að vændi yrði bannað í Danmörku. „Það skiptir máli að senda þessi skilaboð út til komandi kynslóða, að það er ekki í lagi að kaupa manneskju. Örlög þessara kvenna eru svo sorgleg. Þú getur ekki keypt fólk, hvort sem það er til kynlífs eða annars.“

Vel og drengilega mælt. En hlustum svo á boðskap frjálshyggjupostulans:

  • Hannes lýs­ir vændi sem „at­vinnu­tæki­færi“ fyr­ir kon­ur og seg­ir ekk­ert á móti því að þókn­un komi fyr­ir blíðu. (Mbl.is)

Þetta er skammarlegt viðhorf. Vændi er misnotkun á líkama viðkomandi. Vændi (kynlíf við marga ... og oft ekki þá hreinlátustu) felur í sér margvíslegar smithættur, jafnvel banvænna, hægtdrepandi sjúkdóma, og ævitími vændiskvenna er skemmri en meðalfólks. Ennfremur verða margar vændiskonur (jafnvel þær, sem ekki eru gerðar út af dólgum og ekki eru mansals-konur) fyrir ofbeldi af hálfu „viðskiptavinanna“. Þetta er ekki starfsgrein, sem konur geta verið hreyknar af. En dr. Hannesi er slétt sama. Sama siðleysið og hjá þeim BB+BB, þegar þeir leyfðu bæði sölu og kaup á vændi fyrir nokkrum árum, með tilstyrk nýfrjálshyggju-„raka“ frá sínum Heimdellingum, sem meira að segja voru felld inn í greinargerð með frumvarpinu á Alþingi!

Hannes segir „aðal­atriðið um vændi, hvort upp­lýst samþykki beggja liggi fyr­ir. Ef svo er, þá er auðvitað ekk­ert á móti því, að þókn­un komi fyr­ir blíðu,“ segir hann á Face­bókar-síðu sinni og heldur svo áfram að storka kven­frels­issinnum, segist ekki skilja, hvers vegna þær séu „á móti því, að kon­ur noti þetta at­vinnu­tæki­færi [sic!], sé hvergi nein nauðung á ferð. Er þetta ekki dæmi um, að sum­ar kon­ur séu á móti öðrum kon­um, frek­ar en að kon­ur séu al­mennt á móti körl­um?“ skrif­ar hann!

Þarna er hann kominn götuna á enda í ögrunum við kvenfrelssinna. Greinilega er maðurinn ekki í sambandi við lifað líf í landinu, þegar hann skrifar á þessum nótum. Fremur vill hann horfa á málið „hreinakademískt“, eins og þetta sé eitthvert stærðfræðidæmi eða hagfræðimálefni -- eða kannski keppni í rökþrautum, eins og eftirfarandi ber kannski vitni um hjá honum (til vitnað skv. Mbl.is):

  • Seg­ir hann að ekki eigi að af­greiða vændi frek­ar en önn­ur siðferðileg álita­mál „með því einu að segja sög­ur, mis­jafn­lega áreiðan­leg­ar“, held­ur í ljósi tveggja lög­mála eða rök­semda sem hann lýs­ir svo: 
  • „1) Ef menn brjóta ekki rétt á öðrum með því að kaupa eða selja vændi, þá eiga aðrir ekki að skipta sér af því. 2) Ef af­leiðing­arn­ar af að banna vændi eru verri en af­leiðing­arn­ar af því að leyfa það, þá get­ur verið skyn­sam­legt að leyfa það. Önnur rök­in eru rétt­indarök, hin nytjarök.“

Svar við nr. 1: Menn bera líka skyldur gagnvart meðbræðrum sínum og -systrum. Að skoða það eitt í sambandi við vændi, hvort þar sé verið að „brjóta rétt“ eins eða annars, er of þröngt sjónarhorn, þó að jafnvel það eitt gefi reyndar fulla ástæðu til að fordæma vændi. Hvað t.d. um kvæntan mann eða í sambúð, sem kaupir sér blíðu vændiskonu -- brýtur hann ekki rétt á sinni eigin konu með því? Hefur hann ekki skyldur gagnvart henni, sem hann hefur skuldbundið sig til með hjúskaparheitinu? Veldur hann henni ekki líka, ef upp um vændiskaup hans kemst, ómældum sárindum, blygðun og áhyggjum af álitshnekki? Syndgar hann ekki gegn hjónabandinu sjálfu? Brýtur hann ekki gegn börnum sínum með þessu? --Svarað geta menn, að þetta þurfi ekkert að komast upp! En hvað ef hann fær kynsjúkdóm, sem hann síðan ber í konu sína, kemst þá ekki upp um þrjótinn? Veit hún, hreinlíf konan, ekki mætavel, að karlinn hlýtur að hafa fengið sjúkdóminn frá annarri konu og borið hann í hana sjálfa? Þá er skilnaður mjög líklega niðurstaðan og niðurbrot fjölskyldunnar. Skammastu þín, Hannes, fyrir að bera þetta á borð.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við...

Svar við nr. 2: Hér er Hannes bara að fabúlera út í loftið með einfaldri röksemda-tilraun af sínum kennarastóli, en lítur ekkert til þess, að vændisstarfsemi er áhættugrein varðandi sjúkdóma, ofbeldi og styttri lífslíkur, auk þess sem hún stefnir kynheilbrigði þjóðarinnar í tvísýnu. Hann getur ekki, frekar en málsvari Amnesty á Íslandi, látið sem það liggi ekkert fyrir um þetta og að nauðsynlegt sé að setja tveggja ára rannsókn í gang áður en vitlegt sé að lýsa neinu yfir. Niðurstöðurnar eru sannarlega fyrir hendi nú þegar, og prófessorar eiga ekki aðeins að tefla fram grárri theoríu sinna raka, heldur einnig að taka tillit til „empíríunnar“, reynslu og reynsluvísinda. Og það var gott hjá dr. Helga Gunnlaugssyni, prófessor í afbrotafræði, að benda á það í kvöldfréttum Rúv, að „frjálsasta“ landið í þessum málum, Holland, er alls ekki laust við mansals-vanda og ofbeldi vændisdólga.

Jafnvel svokallaðar „maddömur“ í Danmörku, kvenkyns melludólgar, beita skv. Svölu Heiðberg í nefndu viðtali hótunum og grófasta ofbeldi: „Sendir jafnvel gengi heim til fjölskyldumeðlima sem eru lamdir og jafnvel drepnir,“ ef vændiskonan reynir að losna úr greipum slíkrar „maddömu“ og trássast þannig við að endurgjalda henni „skuldina“, yfirleitt 50 þúsund evrur (um 7,4 millj. ísl. kr.) sem „maddömur“ taka að geðþótta sínum fyrir meintan ferðakostnað frá Líbýu eða Nígeríu og fyrir vegabréfi, pappírum o.fl. (fyrir hverja konu). En upp á svona dásamlegt viðskiptalíf eru þeir menn að bjóða ungum konum, sem hugsa eins og Hannes Gissurarson og stuttbuxnadeild Valhallarflokksins.

Og nú hefur æðsta stjórn Amnesty International bætzt í þennan fjandahóp kvenna!

PS. Hér hefur verið vikið að ákveðnum ummælum stuttbuxnadeildar Sjáfstæðisflokksins sem fengu inni í greinargerð með frumvarpi Björns Bjarnasonar, sem samþykkt var í marz 2007, þar sem langt var gengið í því að réttlæta vændi. Þar er ekki sízt átt við þessi orð í V. kafla frumvarpsins (undir 2. lið: Kaup og sala vændis, undirgrein a.: Sala vændis), en þar segir (feitletr. hér):

"Þessi afstaða er byggð á því sjónarmiði að vændi eigi að vera frjáls og viljabundin athöfn út frá viðskiptalegu sjónarmiði. Fólki eigi að vera frjálst að selja líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína, líkamlega sem andlega" [sic!!].

Blygðunarlaus var þessi hugmyndafræði. En er þetta ekki jafnvel misnotkun frjálshyggjunnar? Væri þetta ekki réttnefndara dólgafrjálshyggja? En það þykir undirrituðum virkilega sorglegt, ef hæfileikamaðurinn dr. Hannes ætlar að kannast við krógann.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vændi „atvinnutækifæri“ fyrir konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amnesty kemur sér úr húsi hjá siðuðu fólki: mælir með afglæpavæðingu vændis!

Fjölmargir segja sig nú úr Amnesty International eftir að samtökin samþykktu tillögu um þetta. Íslandsdeild AI sannaði siðferðisskort sinn með því að sitja hjá! Meiri háttar hneyksli er þetta á alþjóðavettvangi og augljóst skemmdarverk á samtökunum.

Til­lag­an var samþykkt á heimsþingi sam­tak­anna í Dublin [sl. mánu]dag. Efn­is­lega hafa sam­tök­in því nú ákveðið að beita sér fyr­ir því að ríki heims­ins aflétti refs­ing­um af iðju vænd­is­fólks (Mbl.is)

Áður höfðu þau tekið upp þá stefnu að berjast fyrir "rétti" til fósturdeyðinga í þriðja heiminum, en bæði það og þessi nýja samþykkt AI, síðastliðinn mánudag til mæðu, eru í engu samræmi við upphaflega hugsjón samtakanna, sem gekk út á að berjast fyrir lausn samvizkufanga úr fangelsi eða varðhaldi.

Ólíkt Íslandsdeild Amnesty lögðust sjö íslenzk kvennasamtök: Kven­rétt­inda­fé­lag Íslands, Stíga­mót, Kvenna­at­hvarfið, Kvennaráðgjöf­in, Sam­tök kvenna af er­lend­um upp­runa, Kven­fé­laga­sam­band Íslands og Femín­ista­fé­lag Íslands, gegn tillögunni sem lá fyrir þingi AI í Dyflinni og gagn­rýndu hana harðlega. Íslandsdeildin má skammast sín fyir siðlausa afstöðu sína.

Kristin stjórnmálasamtök eru fullkomlega sammála því áliti meirihluta meðal þjóðarinnar í nýlegri skoðanakönnun, að banna eigi með lögum BÆÐI sölu og kaup á vændi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vændi nær þrælahaldi en starfsgrein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti gegn sölu og kaupum á vændi

"Íslendingar vilja að sala á vændi sé refsiverð," segir í frétt á visir.is. Jafnvel um "söluna" er þetta afstaða meirihlutans og enn frekar um kaup á vændi, þvert gegn vilja Alþingis! Könnun Félags­vísinda­stofnunar HÍ í apríl s.l. leiðir þetta í ljós; hún var unnin fyrir Helga Gunnlaugsson prófessor og afbrotafræðing. 

Hér sést, sem í fleiri málum, að Kristin stjórnmálasamtök eru ekki með neitt jaðarsjónarmið í málinu, heldur njóta samhljóms þjóðarmeirihlutans.

Afstöðu aðspurðra sjá menn hér fyrir neðan, á grafi sem fylgdi fréttinni. Þegar aðeins eru taldir þeir, sem afstöðu tóku, voru 52,1% fylgjandi banni við sölu vændis, en 47,9 andvígir því; karlmenn eru þar linari á siðferðinu en konur.

  • Niðurstöður rannsóknarinnar sýna líka kynjamun þegar spurt er um hvort kaup á vændi ættu að varða refsingu. 78 prósent kvenna vilja að kaupin séu refsiverð en aðeins 39 prósent karla eru þeirrar skoðunar. (Visir.is)

Þetta er ánægjuleg niðurstaða, sem leiðtogar þjóðarinnar ættu að taka mark á. Því fer fjarri, að ánægja sé með vændislöggjöfina, enda var þjóðin aldrei spurð álits; hins vegar hömpuðu Bjarni ungi Benediktsson og Björn Bjarnason því áliti ungra Heimdellinga í greinargerð með frumvarpinu um lögleiðingu vændis á sínum tíma, að það ætti að vera sjálfsagt mál að fólk fengi að selja aðgang að líkama sínum! Ýmislegt hefur flokkur þeirra á samvizkunni, sem stríðir gegn kristnu siðferði, en þetta er eitt það augljósasta. Hér var efnishyggjuleg nýfrjálshyggjan tekin fram yfir leiðsögn Biblíunnar. 

Þeir, sem gæla við svo ankannaleg viðhorf, þurfa sannarlega á hugar­fars­breytingu að halda!

Jón Valur Jensson.

Íslendingar vilja refsa fyrir vændi

 


Nú rataðist Gunnari Braga satt orð á munn

„Vændi er ekki at­vinnu­grein og á ekki að fá að þríf­ast sem slík,“ segir ráðherrann á Facebók sinni vegna tillögunnar skammarlegu á þingi mann­rétt­inda­sam­tak­anna Am­nesty In­ternati­onal sem nú fer í hönd í Dyflinni. 

Mér finnst hryggi­legt til þess að hugsa að á sama tíma og við hvetj­um karla um all­an heim til að leggja sitt af mörk­um til #hefors­he og koma í veg fyr­ir of­beldi gegn kon­um og tryggja kynja­jafn­rétti þá skulu ein stærstu og virt­ustu mann­rétt­inda­sam­tök heims leggja þess­ar til­lög­ur fram,“ ritar Gunnar.

„Af­glæpa­væðing“ vændis er hugmynd sem aldrei verður til að auka virðingu kvenna né styrkja öryggi þeirra og almennt kynheilbrigði. Gunn­ar bend­ir á að þótt „vændi og rekst­ur vænd­is­húsa yrði lát­inn óátal­inn líkt og tíðkist í Hollandi og Þýzkalandi,“ þá sé einnig þar mansal vanda­mál -- og ugglaust er það mun alvarlegra þar en það er orðið hér nú þegar.

Gunnar telur heims­byggðina ekki þarfn­ast slíkrar afglæpavæðingar, en virðist hlynntur sænsku leiðinni sem valin hefur verið hér og víðar, veit þó af göllum á henni, en segir „for­send­urn­ar ... skýr­ar, að banna vændis­kaup, en ekki að refsa þeim sem neyðast til að stunda vændi.“ 

Þetta orðalag á ekki við hér. Konur neyðast ekki til að stunda vændi, nema þær séu beinlínis kúgaðar til þess, í mansali eða undir beinni ógnun. Slíkt gerði þær ósakhæfar samkvæmt gömlu vændislögunum, eins og í öðrum sakamálum, og það átti að nægja -- engin þörf var á því að gera allt vændisfólk ósakhæft að lögum, enda vitað, að margir einstaklingar hafa látið sig hafa það að stunda vændissölu í ágóðaskyni. Með algeru banni við því og refsingum beggja aðila þarf að stemma stigu við þessum glæp, sem ógnar bæði hjónaböndum og fjölskyldum og kynheilbrigði hér á landi, eins og áður hefur verið fjallað um hér.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vændi ekki atvinnugrein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amnesty International á villubraut siðleysis

Hneykslanleg er misnotkun leiðandi fólks á AI á síðari árum. Ljótur var stuðningur Amnesty við fósturdeyðingar í löndum þriðja heimsins, og nú hyggjast þau styðja "frjálst vændi"! Óraveg eru samtökin komin frá sínum upphaflegu, góðu markmiðum að vinna að sakaruppgjöf (amnesty) samvizkufanga, manna sem fangelsaðir voru vegna skoðana sinna, pólitískra, trúarlegra eða annarra.

Þess er að vænta, að fulltrúar Amnesty á Íslandi sæki ekki heimsþing samtakanna í Dyflinni til að greiða því atkvæði sitt, að mælt verði með "afglæpavæðingu vændis", þ.e.a.s. með því að gera það löglegt. Samtökunum ber að halda sig við sína upphaflegu hugsjón, en kasta ekki frá sér fjölda félagsmanna vegna misráðins stuðnings við hættulegar tízkuhugmyndir sem efla á engan hátt mannréttindi.

Her skal tekið undir með Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Kvenna­ráð­gjaf­arinnar, í viðtali við hana í Morgunútgáfu Rás eitt í morgun, en þar sagði hún m.a.: 

  • "Það er hreinasti misskilningur að það sé til þess fallið að vernda mannréttindi kvenna að gefa vændi frjálst. ... Hún segir að þetta sé kolvitlaus leið til að vernda réttindi vændiskvenna.
  • „Mér finnst þetta alveg hreinn misskilningur að ætla að rökstyðja þessa tillögu, eða taka hana til umræðu í mannréttindasamtökum, á þeim grundvelli að þetta sé til að vernda mannréttindi kvenna,“ segir Þorbjörg. Hún segir að það komi ekki til með að aðstoða þær konur sem „sitja í þeim vítahring að vera inni í vændisiðnaði í dag“ að afglæpavæða hann.
  • „Mér sýnist að misskilningurinn liggi í því að það sé hægt að bæta aðstöðu vændiskvenna með því að gera þetta allt frjálst, að þá aukist aðgangur þeirra að þjónustu og öryggi,“ segir hún og telur einboðið að það muni ekki gerast. ...
  • „Við þurfum að gera allt sem við getum til að minnka þessa starfsemi. Hún er skaðleg fyrir konurnar sem vinna í þessu,“ segir Þorbjörg og telur öruggt að það gerist ekki með því að gefa vændi frjálst."

Kristin stjórnmálasamtök eru alfarið fylgjandi banni við vændi á Íslandi.

Sjá nánar hér í annarri grein undirritaðs: Hröð hnignun Amnesty International í takt við vinstripólitískan "rétttrúnað", þar sem sagt er aðeins frá upphafi samtakanna og spjótum einnig beint gegn markvissum og hneykslanlegum stuðningi þeirra við fósturvíg.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Verður afglæpavæðing fyrir valinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændi ber að banna með öllu - punktur!

Hér er langt viðtal og frásögn á Mbl.is af hörmulegri ævi konu sem leidd var út í vændi frá barnsaldri, í aldarfjórðung, þar sem hún bjó við mikið ofbeldi, en prísar sig sæla að vera lífs; aðrar í hennar sporum voru ekki svo heppnar, eins og þar kemur fram (sjá tengil neðar). Nú vinnur hún að fyrirbyggjandi aðgerðum til að forða ungum stúlkum frá því hræðilega hlutskipti sem hún varð að líða.

Megi þessi hjartaskerandi frásögn verða mönnum til að snúa til baka af þeirri vændis-braut, sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi landið út á. Þótt vændislög hans hafi síðar fengið rækilega yfirhalningu og refsingar verið teknar upp fyrir þá sem kaupa vændi (auk vændisdólga, sem hér á landi virðast aðallega kvenkyns), þá þarf hreinlega að banna fyrirbærið með öllu og leggja refsingu við bæði kaupum og sölu, sem og útlegð frá landinu, ef um aðkomna er að ræða. Það eitt dugir, bæði til að stemma stigu við straumi vændisfólks hingað og til að koma í veg fyrir útbreiðslu kynsjúkdóma. Vændi fylgja nefnilega líka fórnarlömb í fjölskyldum kaupendanna (í formi smitaðra eiginkvenna og upplausn fjölskyldna) eða hjá rekkjunautum þeirra öðrum og svo koll af kolli til annarra.

Það sama á við um aðra ljóta fjárplógsstarfsemi sem einkum drukknir menn verða fyrir og hér er smá-lýsing ungs manns á (fyrir um 15 mánuðum*):

  • "Ég vann á svona nektardansstað þegar ég var rétt yfir tvítugt. Þarna komu karlar inn og dansaranir fengu þá til að kaupa handa sér kampavín á yfirsprengdu verði sem okurlánara myndi blöskra yfir. Þessar dömur voru snillingar í að nýta sér aðstæður og ástand karlanna til að ná öllu af þeim sem þær gátu. Það var ekki óalgengt að þeir færu heim snemma morguns eftir að hafa eytt 200 þúsund til 500 þúsund og jafnvel enn meira. Og þetta var einungis fyrir kampavínsdrykki og jafnvel enga dansa. Síðan er sagt að nektardansmærin sé fórnarlamb, sett þarna sem hluta af mansali, neydd í vændi. Að minnsta kosti var ekkert þannig þar sem ég vann, satt best að segja þurftum við stundum að hafa auga á dönsurunum að þær fylgdu reglunum, þar sem sumar voru svo gráðugar að þær gerðu allt sem þær gátu til að græða á körlunum. Allar þessar dömur voru þarna af fúsum og frjálsum vilja og færri komust að en vildu.
  • Mér hefur alltaf fundist umræðan að nektardansmærin sé fórnarlamb mjög skökk útfrá reynslu minni af þessu, ekki það að ég er alveg viss um að mansal og þannig sé til í þessum geira.
  • Ég væri alveg til að fá 500 þúsund á kvöldi fyrir að tala við konu og aumka mig yfir hana og dilla mig fyrir framan hana. Það er ef ég væri svo samvisku- og siðlaus að geta misnotað fólk svona. Ekki slæm laun það. En ég er nú nokkuð viss um að það myndi heyrast eitthvað í samfélaginu ef það væri til starfsemi þar sem karlmenn myndu féfletta konur með því að hvetja þær til drykkju og svo nýta sér ástand þeirra og andlega veikleika til að ná öllu af þeim þangað til að það kemur neitun á VISA-kortið þeirra og þá væri þeim fleygt út. Ég hef oft hugsað út í það hvort það teldist jafn sjálfsagt og hvort karlinn væri talinn fórnarlamb við þær aðstæður????"

Og hann bætti við í svari:

  • "Ég er bara að lýsa nákvæmlega hvernig þetta var þarna. Ég sá ekki ófáa karlmenn fara grátandi út eftir að þeir gerðu sér grein fyrir hvað þeir voru búnir að eyða miklu.
  • Ég hef alltaf spurt sjálfan mig hvort það sé eðlilegt, siðferðislega, að leyfa svona starfsemi, ekki til að vernda konuna, heldur til að vernda karlana fyrir fjárplógsstarfsemi. A.m.k. þegar kemur að vændi þá er ákveðin upphæð fyrir ákveðinn verknað (ekki að ég sé að réttlæta gjörðina), en í hinu tilfellinu er að tala um fagfólk sem eru sérfræðingar að ná hverri einustu krónu af þér. Og hingað til hefur öll þannig starfsemi verið bönnuð, nema þú sért með leyfi til að reka banka :) "

En hann fekk reyndar stutt og laggott svar frá einni á sömu vefslóð:*

  • "þú heldur varla að þetta hafi farið í vasann þeirra, hahahaha"

Því svaraði hann:

  • "Þær tóku prósentur af þessu. Ég vissi nú einu sinni prósentuna, en er honestly búinn að gleyma henni, en mig minnir að það hafi verið nokkuð fair skipti."

Eina ráðið er að banna slíka starfsemi með öllu. Þarna liggur líka oft á grunur um raunverulegt vændi, og það yrði trúlega mikill sparnaður, bæði í eftirliti lögreglu og eyðslu af ríkisfé, að hafa hér hreinar línur og gera slíka starfsemi með öllu útlæga, að viðlögðum háum sektum og útlegðardómum.

* http://kvennabladid.is/2014/03/26/fjortan-einkenni-feminisma/


mbl.is Var vændiskona í aldarfjórðung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Kristinn þjóðarflokk?

Höfundur

Kristin stjórnmálasamtök
Kristin stjórnmálasamtök

Málfundafélag Athugasemdir birtast ekki sjálfkrafa né strax og eru því aðeins samþykktar að þær fari ekki langt út fyrir efni blogggreinar, séu orðaðar kurteislega og feli ekki í sér árás á kristna trú og söfnuði né heldur lögbrot eða grófar persónuárásir eða hæpnar fullyrðingar án nafnbirtingar. Áskiljum okkur rétt til að útiloka menn kunna að árásum á kristindóm og kirkju. Og skrifið undir fullu nafni! - Skoðið eftirfarandi neðar í þessum dálki: TENGLAR – Yfirlit fyrri greina. For info. in English on this CHRISTIAN POLITICAL MOVEMENT, see HERE.

Bloggvinir

Des. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Eldri færslur

Nýjustu myndir

  • jesus kristur 1301705
  • 13wochen
  • 19d7v3r18h3r1
  • GRHI20UO
  • Pasted Graphic
  • Jón Valur Jensson, maí 2016
  • Steindór Sigursteinsson
  • 1184796 230094733815535 1832625948 n
  • In my office 004
  • ...20zierniete

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 594
  • Frá upphafi: 471614

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 499
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband