Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Raforkumál


– Kristin stjórnmálasamtök taka skýra afstöðu með rétti byggðarlaga úti á landi sem einangrast geta vegna ófærðar og lent í rafmagnsleysi vegna fallinna raforkulína. Tryggja ber raforku á þeim stöðum, ekki aðeins á heilbrigðisstofnunum, heldur fyrir alla íbúa og fyrirtæki þar, með dísilvararafstöðvum og að hluta til með hugsanlegri samvinnu við útgerðarfyrirtæki stórra skipa á þeim stöðum, til að nýta ljósavélar þeirra til raforkuöflunar, þegar svo ber við, en kostnaður verði greiddur af ríkinu.


Úr stefnuskrárdrögum Kristinna stjórnmálasamtaka um félagslega þjónustu


– KS boða þá stefnu að þeim foreldrum, sem vilja sjálfir ala upp börn sín í stað þess að senda þau á leikskóla eða til dagmóður, verði umbunað með styrk sveitarfélags, og má hann nema í hverju tilviki allt að helmingi þess meðal-kostnaðar sem sparast í hinum ótrúlega háu niðurgreiðslum til foreldra með barn á leikskóla.

 

– Ríkinu ber að styðja aðstoð við fátæka og bágstadda, m.a. með gjafsókn mála þeirra, með stórhækkun fæðingardagpeninga til þeirra, sem þá fá, með húsaleigubótum, með ríflegum styrkjum við mæðrastyrksnefndir, Fjölskylduhjálp Íslands, RKÍ o.fl. slík samtök sem standa að matar- og fataúthlutun og neyðaraðstoð. Stjórnvöldum, sem átt hafa þátt í að leggja hér fátæktargildrur, á að sjálfsögðu að renna blóðið til skyldunnar að efla hér fátækrahjálp.


Enn eitt áfallið fyrir stjórnarskrárbyltingarmenn

Áskorun 11 hæstaréttarlögmanna á alþingismenn "að fara hægt í stjórnarskrármálinu", þar sem varhugavert sé að gera grundvallarbreytingar á stjórnskipaninni með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er enn eitt áfall fyrir hin vanreifuðu tillögudrög stjórnlagaráðsins sáluga að nýrri stjórnarskrá.

En þessi lögfræðingahópur, með mikla bóga innanborðs eins og Karl Axelsson, Reimar Pétursson, Jakob R. Möller, Ragnar H. Hall og Sigurð G. Guðjónsson, minnir á, að "Alþingi fer með vald stjórnarskrárgjafans," en að "við það vandasama verkefni verði að huga rækilega að nokkrum atriðum," og þau telja hér upp nokkur:

Mikilvægt er að hafa hugfast að við gerð stjórnarskrár á ekki og má ekki tjalda til einnar nætur. Lausung í stjórnarfari hefur ávallt hættu í för með sér. Þrír þættir eru sérlega mikilvægir: Vönduð vinnubrögð, þekking hins vísasta fólks verði nýtt og breytingar gerðar í eins mikilli og almennri sátt og mögulegt er.

Samþykkt núverandi frumvarps, með þeim breytingartillögum sem fyrir liggja, hefði í för með sér mjög róttækar breytingar á íslenskri stjórnskipun. Ekki hefur farið fram ýtarleg greining á mögulegum afleiðingum þess að frumvarpið verði samþykkt. Sú takmarkaða skoðun sem farið hefur fram bendir eindregið til þess að í frumvarpinu felist margvíslegar hættur fyrir lýðræðislegt  þjóðskipulag. (Leturbr. jvj.)

Við, undirritaðir hæstaréttarlögmenn, teljum varhugavert að gera þær  grundvallarbreytingar  á stjórnskipun ríkisins sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Og þeir hnykkja á afstöðu sinni, gera dagljóst að hér er talað af mikilli alvöru í afgerandi mikilvægu máli (feitletrun hér):

Til þess að Alþingi rísi undir stjórnskipulegu hlutverki sínu er þinginu skylt að taka sjálfstæða afstöðu til frumvarpsins. Tryggja verður vandaðan undirbúning og breiða samstöðu áður en ný stjórnarskrá lýðveldisins er samþykkt. Töluvert vantar á að þessi skilyrði séu uppfyllt. Skorum við á þingmenn að vanda betur til undirbúnings,

segja þeir í þessari í áskorun sinni. Undir rita Berglind Svavarsdóttir, Björgvin Þorsteinsson, Jakob R. Möller, Karl Axelsson, Kristinn Hallgrímsson, Ragnar H. Hall, Reimar Pétursson, Sigurður G. Guðjónsson, Þorsteinn Einarsson, Þórdís Bjarnadóttir og Þórunn Guðmundsdóttir.

J.V.J. tók saman. 


mbl.is Hæstaréttarlögmenn skora á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það skiptir engu máli" !!!

"Það skiptir engu máli," sagði Þorvaldur Gylfason í Silfri Egils í gær, þegar Egill benti á, að í nýju framboði hans og fjögurra annarra fv. stjórnlagaráðsmanna væri ekki eining um afstöðuna til Evrópusambandsins. En yfir 70% þjóðarinnar skiptir það gríðarlegu máli, að ekki veljist ESB-sinnaður meirihluti á Alþingi í komandi kosningum, svo mikið er ljóst,* og í fullu samræmi við það er einboðið, að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hlýtur að hafna leiðsögn Þorvaldar Gylfasonar og annarra fylgismanna hans, sem hafa sem heild tekið upp þá stefnu, að halda beri áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og leiða þær til lykta (en það tæki 25-26 mánuði til viðbótar að sögn "aðalsamninganefndarmanns" Íslands, Stefáns Hauks Jóhannessonar).

Það er ánægjulegt að geta upplýst um það hér, að Kristin stjórnmálasamtök eru heilsteypt í sinni andstöðu við "aðild" að Evrópusambandinu og munu hafa það meðal sinna helztu og bindandi stefnumála, þannig að enginn, sem ekki skrifar upp á þá stefnu, getur gerzt frambjóðandi væntanlegs kristins flokks.

Þetta land var okkur ekki gefið með auðlindum þess og réttindum meðal þjóðanna, eftir langa sjálfstæðisbaráttu, til þess að við glutruðum niður fullveldi okkar og sjálfstæði.

  • 72,3% eru andvíg því, að Ísland fari inn í Evrópusambandið skv. nýjustu skoðanakönnun (MMR), þegar aðeins eru taldir þeir sem afstöðu tóku, en einungis 27,7% vilja fara þangað inn. Könnunin fór fram 15.-20. jan. Jafnvel áður en réttlætið kom í ljós í Icesave-málinu, sem Evrópusambandið reyndi að þvinga okkur til uppgjafar í, þá var sem sé þessi mikla andstaða nær 3/4 þjóðarinnar gegn þessu valdfreka fyrirbæri.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Lýðræðisvaktin stofnuð formlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður VG forðað frá óförum úr þessu?

Eiga þau aðeins á ESB-fólki að skipa til forystu? Einungis talhlýðnum þjónum Steingríms J. í Icesave-málinu? Engu fólki sem barizt hafi gegn skjaldborg ríkisstjórnarinnar um fjármagnseigendur? Var skjaldborgin um alþýðuna skrýtla eða stórfelld svikasamsuða?

Fjöldi fullveldissinnaðra manna kaus Vinstri græn 2009. Fjöldi þeirra hefur nú hætt að styðja flokkinn. Það er ekki nóg að gera andlitslyftingu með kynskiptingu í forystunni, ef grunnhugsunin er enn sú sama hjá Katrínu og Steingrími. Ekki hjálpar að hafa hann í aftursætinu! Og ekki var það trúverðugt af Katrínu að lýsa því í Sjónvarpi hve sæl hún væri að njóta samráðs við hann. Áfram stefna þau með þvílíku tali að 5% markinu.

Og síðast alls yrði Katrínu fengur að því að hafa þetta Icesave-hörkutól, Björn Val Gíslason, helzta handlangara Steingríms, við hlið sér sem varaformann:  

Björn Valur Gíslason

Sjá nánar fyrri grein hér þennan sunnudag.

Jón Valur Jensson. 



mbl.is Björn Valur íhugar að bjóða sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðsmalanleg var Katrín Jakobsdóttir í ESB- og Icesave-frekjuhundamálum í þingflokki VG. Fellur sem slík á prófi sem formannsefni!

Katrín, sem býður sig nú fram til formennsku í VG, hefur ekki sýnt sjálfstæði gagnvart sitjandi, valdfrekum formanni sínum í hverju stórmálinu eftir annað, t.d. Icesave, og auðsveip virtist hún honum í ESB-umsóknarmálinu, fram í fingurgóma í atkvæðagreiðslum um það mál, sjá nánar úttekt á því á vefsíðu Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland.

Það væri raunalegt fyrir framtíð Vinstri grænna, ef þau velja einhvern til forystu, sem staðið hefur eindregið gegn þjóðarvilja í meginmálum eða í einskærri húsbóndahollustu þjónað dyntum Steingríms J. Sigfússonar árum saman í hans hrapallegu ESB- og Icesave-málum. Verður því vart trúað að óreyndu.

Með því að velja slíkan formann væri landsfundur Vinstri grænna að innsigla trúnaðarbrestinn sem þar er orðinn milli Icesave- og ESB-hlynntrar forystunnar annars vegar og almennra flokksmanna hins vegar. Vilja þeir kannski ganga frá flokknum fyrir fullt og allt? Eða halda þeir, að Katrín Jakobsdóttir fái allt í einu bein í nefið við það eitt að verða formaður?

Það er ánægjulegt að geta upplýst um það hér, að Kristin stjórnmálasamtök eru meðal örfárra flokkspólitískra samtaka á Íslandi sem eru heilsteypt í sinni andstöðu við "aðild" að Evrópusambandinu og munu hafa það meðal sinna helztu og bindandi stefnumála, þannig að enginn, sem ekki skrifar upp á þá stefnu, getur gerzt frambjóðandi væntanlegs kristins flokks.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Katrín býður sig fram til formanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt ESB-framboðið - "stjórnlagaráðsmanna"!

Athyglisvert er að hinn algeri ESB-maður Guðbjörn Guðbjörnsson (virkur í ESB-samtökum) leggur framboði "Lýðræðisvaktarinnar" lið.* Það er í takti við, að um helmingur stjórnlagaráðsmana var eindregið ESB-fólk.

Við þurfum ekki fleiri slíka á þing. Fylgi við inntöku Íslands í ESB er einungis 24,2% (sjá hér: http://krist.blog.is/blog/krist/entry/1282698/ -- raunar var það orðið þannig áður en EFTA-dómurinn sýknaði okkur í Icesave-málinu, þar sem ESB tók harða afstöðu gegn okkur; enn meira bakfall frá ESB á því jafnvel eftir að koma í ljós). 

Guðbjörn upplýsir að þessi "Lýðræðisvakt" vilji "klára aðildarviðræðurnar", vill sem sé tveggja ára framhald þess tilgangsleysis með miklum tilkostnaði.** Greinilega á því fólkið í þessu framboði auðvelt með að kyngja ýmsu misjöfnu, eins og freklegri þvingun ESB við okkur í Icesave-máli - http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1279975/ - og yfirgangi ESB, jafnvel viðskiptahótunum, í makríldeilunni. En við þurfum ekki fleiri ESB-undirlægjur inn í íslenzk stjórnmál.

25 manna hópurinn, sem endaði í stjórnlagaráði, lét sér ekki nægja að taka ólögmætri tilnefningu 30 vinstri þingmanna á Alþingi, með tilheyrandi fjárburði, heldur réðst beinlínis á öryggi lýðveldisins með sinni forsmánarlegu 111. grein með heimild til fullveldisframsals til erlends stórveldis! Á svo íslenzk alþýða að kjósa þvílíka menn, undir forystu ESB-málpípunnar Þorvaldar Gylfasonar og páfagauks hans Péturs áróðursmanns Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu?!!!

* Þetta kemur fram í innleggjum Guðbjörns í frétt um málið á Eyjunni.

** Tvö ár og 2-3 mánuðir er tíminn sem Stefán Haukur Jóhannesson, hinn rangnefndi "aðalsamningamaður" Íslands í viðræðum um inngöngu Íslands í ESB, áætlar þar til búið verði að ljúka viðræðunum og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, sjá hér: http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1283139/.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Stjórnlagaráðsmenn stofna Lýðræðisvaktina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paþetískt

Veraldarhyggjan getur orðið gersamlega blind í trúnni á eigið ágæti og sér þá hvorki ósómann né réttarbrotið í hávaðaaðgerðum eins og þeim sem fóru fram Notre Dame-dómkirkjunni í París í dag, þar sem 8 brjóstaberar héldu upp á afsögn Benedikts páfa XVI með sínum fullyrðingum um að trúarbrögð væru vandamál og páfinn vandamál, en í takt við eitt slagorðið, sem ritað var stórum stöfum á bak einnar konunnar: "In Gay we trust," telja þær, að leyfa eigi ættleiðingu og giftingu samkynhneigðra. Hér er um úkraínska kvennahópinn FEMEN að ræða.

"Mér fannst þetta hræðilegt, þetta er kirkja," segir eldri maður í sjónvarpsviðtali við atburðinn. "Fyrir utan kirkjuna er það í lagi, en inni í kirkjunni er það hræðilegt að mínu mati." Og kona: "Ég held að [þær] eigi að sýna [helgi]stöðum og fólki virðingu, það er allt sem ég hef að segja" um þetta.

Topless women activists bang Notre Dame bell in anti-pope protest in Paris cathedralÞær hrópuðu ekki aðeins mótmæli, heldur tókst líka að hringja risastóru kirkjuklukkunni þarna.

Þetta unga fólk ætti ennfremur að virða félagafrelsi kirkjunnar eins og annarra samfélaga, rétt þeirra til að hafa sína leiðtoga og sína kristnu kenningu, en ekki ætlast til andkristinnar kenningar af kristnu fólki sem deilir ekki með þeim trúleysi og viðleitni til guðlasts og helgispjalla. Því ber þessum herskáu trúargagnrýnendum að halda sig með sínar öfgaáherzlur frá helgistöðum, enda hafa róttæklingar frelsi til að gera þetta á eigin vettvangi eða heima hjá sér.

JVJ.

 


mbl.is Brjóstaberar konur fögnuðu afsögn páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi andstaða við ESB

Ánægjuleg er áframhaldandi og vaxandi andstaða við "að Ísland gangi í Evrópusambandið," eins og í ljós kemur í nýrri könnun MMR.

  • Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 24,2% hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið nú, borið saman við 25% í síðustu mælingu (15-20 janúar 2013). Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 63,3% vera andvíg því að Ísland gengi í Evrópusambandið nú, borið saman við 62,7% í janúar.

Þarna er eindreginn meirihlutinn alveg sammála okkur í Kristnum stjórnmálasamtökum. Slíkt er hins vegar flækjustig stóru flokkanna í eigin málamiðlunum, að hin algera, fortakslausa andstaða við ESB-inntök birtist helzt í stefnu þriggja smárra stjórnmálasamtaka: Hægri grænna, Alþýðufylkingarinnar (Þorvaldar Þorvaldssonar trésmiðs, Vésteins Valgarðssonar o.fl., á yzt á vinstri kanti) og Kristinna stjórnmálasamtaka. Af Fjór- og Fimmflokknum er það helzt Framsóknarflokkurinn sem stendur hér í lappirnar og vill ekki sjá Evrópusambandið, en mætti þó tala enn afdráttarlausar og hafa t.d. þá sömu reglu og Kristin stjórnmálasamtök, að í framboði á vegum þeirra komi ekki annað til greina en að frambjóðendur séu einarðir og skuldbundnir í stuðningi við fullveldið og andstöðu við allt tal um ESB-"aðildar"-umsókn.

Athyglisverð er andstaða hinna ungu við ESB: "af þeim sem tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) voru 15,6% hlynnt inngöngu Íslands í ESB, á aldrinum 30-49 ára voru 23,2% hlynnt inngöngu og í elsta aldurshópnum (50-67 ára) voru 33,2% hlynnt inngöngu Íslands í ESB." -- Greinilega mun ekki blása byrlegar fyrir þessu stórveldabandalagi hér á landi á næstu áratugum!

 

En niðurstaðan í þessari könnun, þessi vaxandi andstaða við ESB, er eins og niðurstaðan úr reynsluvísindum: Þjóðin sér, að Evrópusambandið hefur beitt okkur rangindum í tveimur miklum hagsmunamálum fyrir íslenzkt samfélag: í Icesave-málinu og makríldeilunni. Fráleitt væri að treysta slíku stórveldabandalagi fyrir þjóðarhagsmunum okkar, enda værum við veikasti aðilinn allra, ef við værum í ESB, með langminnsta atkvæðavægi -- og það í okkar sjávarútvegsmálum -- í hinu löggefandi ráðherraráði ESB: 0,06%, enda erum við ekki nema rúml. 3/4 af stærð langminnstu þjóðarinnar þar nú, Möltubúa.

Jón Valur Jensson.


mbl.is 63,3% andvíg inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingiskosningar í nánd - eftir Friðrik Schram


Á ég að segja þér hvaða flokk þú átt að kjósa í alþingskosningunum í vor? Nei, það ætla ég ekki að gera, enda ekki mitt hlutverk að gera það. Ég hef sjálfur ekki gert upp hug minn í þeim efnum.  En eitt ætla ég að biðja þig um að gera: Biðja þess að við fáum góðviljað fólk á þing.  Við sem fylgst höfum með störfum þingsins, höfum orðið vitni að hugarfari meðal þingmanna sem ekki kann góðri lukku að stýra. Meðan mannfyrirlitning, háð og útúrsnúningar leyfast í þingsalnum, og það fyrir allra augum, þá er ekki gott í efni. Ef þingmenn líta á aðra þingmenn sem svarna andstæðinga sem ekki er hægt að taka tillit til, þá er breytinga þörf.  Hvað er til ráða? Við kristið fólk megum og eigum að biðja þess að þetta breytist.  Við viljum sjá góðviljað fólk á alþingi, fólk sem hlustar með skilningi á “andstæðinga” sína og reynir –með þjóðarhag og þjóðarsátt í huga- að koma til móts við sjónarmið þeirra eins og eðlilegt er. Ef lýðræðið felst í valdi 51% þingmanna yfir hinum 49 prósentunum, ef naumur meirihluti keyrir vilja sinn í gegn með hörku, þá hafa menn ekki skilið lýðræðið, eða vinna a.m.k. ekki í anda þess. Ef 51% hrósar sigri yfir hinum 49% hvað fáum við þá? ...einhuga, samstillta þjóð? Nei, sundraða þjóð sem mun halda áfram að togast á um völd, verðmæti og aðstöðu.

Á þessu þarf að verða breyting. Hvernig verður hún? Með því að við fáum góðviljað fólk á þing, fólk sem vill taka tillit til annarra og gera sanngjarnar,   heiðarlegar og skynsamar málamiðlanir.  Þegar Páll postuli var á 2. kristniboðsferð sinni (í Grikklandi) risu íbúar Þessalóníku upp gegn honum og vildu draga hann fyrir dóm. Vinum Páls tókst á síðustu stundu að forða honum undan ofsækjendum hans og koma honum til nágrannaborgar sem hét Beroja. Íbúar þeirrar borgar tóku Páli vel og er þeim lýst sem veglyndum og góðviljuðum. Hlustuðu þeir með einlægni á mál Páls og tóku margir þeirra við boðskap hans.

Það þarf góðviljað fólk til að koma góðum málum í gegn. Tortryggni, andúð og óvild hefur aldrei leitt neitt gott af sér. Nú þurfum við góðviljað fólk á þing. Gerum það að bænarefni okkar, að Guð sendi veglynt fólk á þing og færi jafnframt “út af borðinu” þá sem ala á óvild og standa gegn sanngjörnum lausnum og sátt í mikilvægum málum. Við þurfum ekki að nefna nein nöfn, kannski koma þau í huga okkar og þá er það gott mál, en almennt skulum við biðja þess að Guð sendi góðviljað fólk á næsta þjóðþing okkar. Það mun leiða til velfarnaðar og lausn margra erfiðra deilumála. Biðjum! Guð heyrir bænir –og svarar þeim.  Verði Guðs vilji!

Um höfundinn og fyrri skrif, sjá HÉR.

Greinin er fengin (með góðfúslegu leyfi) af vefsíðu Íslensku Kristskirkjunnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kristinn þjóðarflokk?

Höfundur

Kristin stjórnmálasamtök
Kristin stjórnmálasamtök

Málfundafélag Athugasemdir birtast ekki sjálfkrafa né strax og eru því aðeins samþykktar að þær fari ekki langt út fyrir efni blogggreinar, séu orðaðar kurteislega og feli ekki í sér árás á kristna trú og söfnuði né heldur lögbrot eða grófar persónuárásir eða hæpnar fullyrðingar án nafnbirtingar. Áskiljum okkur rétt til að útiloka menn kunna að árásum á kristindóm og kirkju. Og skrifið undir fullu nafni! - Skoðið eftirfarandi neðar í þessum dálki: TENGLAR – Yfirlit fyrri greina. For info. in English on this CHRISTIAN POLITICAL MOVEMENT, see HERE.

Bloggvinir

Des. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Eldri færslur

Nýjustu myndir

  • jesus kristur 1301705
  • 13wochen
  • 19d7v3r18h3r1
  • GRHI20UO
  • Pasted Graphic
  • Jón Valur Jensson, maí 2016
  • Steindór Sigursteinsson
  • 1184796 230094733815535 1832625948 n
  • In my office 004
  • ...20zierniete

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 594
  • Frá upphafi: 471614

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 499
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband